Aðalfundur SÍGÍ var haldinn hjá Golfklúbbnum Keili í Hafnarfirði fimmtudaginn 15. febrúar 2024
Á fundinum voru hefðbundin aðalfundarstörf en það var Steindór Kr. Ragnarsson Formaður SÍGÍ setti fundinn og lagði til Ólafur Þór Ágústsson sem fundarstjóri og Hólmar Freyr Christiansson sem fundarritara og var það samþykkt með lófaklappi.
Steindór hóf svo aðalfundarstörf með kynningu á skýrslu stjórnar þar sem var farið yfir hina helstu atburði SÍGÍ á árinu, því næst var það Jóhann Gunnar Kristinsson gjaldkeri SÍGÍ sem fór yfir ársreikninginn fyrir síðasta ár og gaf útskýringar á nokkrum liðum einnig. Jóhann fór einnig yfir rekstraráætlun næsta árs. Skýrslu stjórnar má nálgast hér: Skýrsla Stjórnar SÍGÍ starfsárið 2023
Rekstur SÍGÍ var samkvæmt áætlun er gert var ráð fyrir minniháttar tapi í ár til að ná tilætlaðri upphæð í eigið fé og eru eignir SÍGÍ í upphafi árs 2024, 4.000.000kr-
Rekstur SÍGÍ stendur vel og er í góðu jafnvægi.
Fundarstjóri bauð næst upp á umræður og kosningu um skýrslu stjórnar og reikningana. Engar athugsemdir komu fram og voru reikningarnir samþykktir samhljóða.
Því næst var kosið til stjórnar og voru tillögur stjórnar eftirfarandi:
Steindór Ragnarsson sem formaður kjörinn til eins árs.
Leó Snær Pétursson og Einar Gestur Jónasson í aðalstjórn til tveggja ára.
Hólmar Freyr Christiansson og Haukur Jónsson sem varamenn í stjórn til eins árs.
Þá var einnig kosið í ferða og ráðstefnunefnd:
Frá Stjórn SÍGÍ í nefndinni: Haukur Jónsson og Leó Snær Pétursson
Aðrir meðlimir Guðbjartur Ísak Ásgeirsson, Bjarni Hannesson og Kristinn V Jóhannsson
Að lokum var kosning um skoðunarmenn reikninga.
Þar voru í kjöri Steinn Ólafsson og Ágúst Húbertsson.
Tillögur stjórnar voru samþykktar samhljóða.
Ellert Jón Þórarinsson og Jóhann Gunnar Kristinsson voru ekki í kjöri í ár og sitja hið minnsta ár í viðbót.
Undir önnur mál var það Formaður SÍGÍ, Steindór Kr. Ragnarsson sem veitti ötullum meðlimum SÍGÍ viðurkenningar.
“Stjórn SÍGÍ vill nýta tækifærið og veita nokkrum meðlimum SÍGÍ okkar þakklætisvott fyrir mikinn stuðning og vel unnin störf í þágu félagsins og okkar fags. Silfurmerkið hljóta þeir aðilar sem hafa unnið ötullega fyrir hönd félagsins um árabil” segir Steindór.
Það voru þeir Ágúst Jensson sem var í stjórn SÍGÍ í 12 ár, þar af formaður í 5 ár ásamt því að koma að ráðgjöf ofl. fyrir hönd SÍGÍ. Brynjar Sæmundsson var í stjórn SÍGÍ í 9 ár, formaður í eitt ár og fyrirlesari ofl. í hart nær 30 ár. Guðmundur Árni Gunnarsson var í stjórn í 14 ár á miklum uppvaxtarárum SÍGÍ. Steinn G. Ólafsson var í stjórn í 2 ár og skoðunarmaður reikninga í meira og minna 25 ár. Örn Hafsteinsson var í stjórn í 14 ár einnig líkt og Guðmundur á miklum uppvaxtartímum SÍGÍ.
Frá vinstri: Ágúst Jensson, Brynjar Sæmundsson, Guðmundur Árni Gunnarsson, Steinn Ólafsson, Örn Hafsteinsson.
Steindór hafði ekki lokið sér af og veitti Ólafi Þór Ágústsyni Gullmerki SÍGÍ og nafnbótina heiðursmeðlimur SÍGÍ. Ólafur er einn af stofnendum SÍGÍ, óhætt er að segja hann hafi unnið ákveðið frumkvöðlastarf í faginu, hann var formaður SÍGÍ í 3 ár ásamt því að hafa verið einn íslendinga forseti FEGGA í 4 ár. Saga Ólafs í SÍGÍ spannar því öll 30 ár SÍGÍ.
Viðurkenningunum var hvergi lokið og var Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ næst á svið og vildi nýta afmælisárið til að veita heiðursorðu fyrir áralanga vinnu í þágu golfs á Íslandi og hlaut Ólafur Þór Gullmerki GSÍ.
Því næst var það Bjarni Þór Hannesson sem steig í pontu fyrir hönd mannvirkjanefndar KSÍ. Bjarni var með tölu um hversu mikið vellirnir hafi verið betri eftir því sem samtökunum óx fiskur um hrygg og að þessu tilefni sæmdi hann Ólaf Þór silfurmerki KSÍ.
Undir liðnum önnur mál er einnig farið yfir fatnað sem hefur fylgt árgjaldi og verður það FootJoy jakki frá ÓJK-ÍSAM í ár.
Viðhorfskönnun SÍGÍ var rædd, en hún mun snúa að starfsmönnum sem vinna að umhirðu völlanna sem snýr að starfsánægju þeirra. Markmiðið er að tvískipta könnuninni þ.e.a.s. vera með eina fyrir heilsárs starfsmenn sem yrði send út á næstu dögum og síðar í haust fyrir sumarstarfsmenn klúbbana.
Fram kom að vel rúmlega 50% þeirra sem hafa farið í golfvallarnám hafa hætt í faginu. Staðan er sú að 54 hafa farið í námið en aðeins 20 manns eru ennþá að vinna á völlunum. Eins eru 6 aðrir sem vinna ennþá í faginu en ekki út á völlunum.
Einnig talaði Bjarni Þór Hannesson um ráðstefnu SÍGÍ sem verður haldin 7. og 8. mars næstkomandi.
Í lokin tók Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ aftur til máls og bauð aðstoð sína til SÍGÍ við að efla menntun í faginu og hvernig hægt sé að þróa þetta til framtíðar því nauðsynlegt sé að halda við endurnýjun.
Golfmót SÍGÍ var staðfest en það verður haldið 5. september hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar klukkan 14:00
Endurkjörinn formaður SÍGÍ, Steindór Kr. Ragnarsson þakkaði fyrir sig og fyrir hönd stjórnar og hlakkar til áframhaldandi samstarfs og minnir félagsmenn á að taka 7. og 8. mars frá fyrir ráðstefnuna.